Kostnaður við breytingar á Grímseyjarfjerju yfir 500 milljónir

Kristján Möller, alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, segir kostnað við breytingar á „nýrri" Grímseyjarferju orðinn a.m.k. 500 milljónir króna og a.m.k. 100 milljónir eigi enn eftir að bætast við.

Kristján situr í samgöngunefnd Alþingis og hefur óskað eftir fundi í nefndinni til þess að ræða um Grímseyjarferjuna, en þess má geta að í upphafi var gerð áætlun um kostnað við nýsmíði Grímseyjarferju og var talið að hún myndi kosta 700–800 milljónir króna.

Gamalt skip var keypt frá Írlandi fyrir nokkrum misserum og nú er unnið að breytingum á því í Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði. „Ég gerði mér ferð þangað í morgun og ég verð að segja að ég varð fyrir áfalli að skoða skipið," sagði Kristján í samtali við Morgunblaðið í gær. „Þetta mál er ein sorgarsaga og hreinn skandall í stjórnsýslu sem samgönguráðuneytið ber ábyrgð á. Þess vegna hef ég óskað eftir því bréflega við formann samgöngunefndar að nefndin komi saman og ýmsir aðilar, ráðgjafar og aðrir sem að ákvörðuninni komu, verði kallaðir á fundinn."

Skipið kostaði 102 milljónir og upphaflegt samningsverð vegna endurbóta var 117 milljónir króna.

"Síðan hefur ýmislegt þurft að gera sem var ekki í útboðinu; til dæmis er búið að taka upp allar vélar skipsins, sem kostar 70–80 milljónir er mér sagt og skipt hefur verið um nánast allar plötur í byrðingi skipsins, bæði bakborðs- og stjórnborðsmegin. Svo er fleira eins og lúgur og hlerar, til þess að taka vörur um borð og keyra bíla til og frá borði, sem kosta rúmar 100 milljónir," segir Kristján.

Þingmaðurinn tekur svo til orða að það hafi verið hneyksli að kaupa svona gamalt skip, enda hafi hreppsnefnd Grímseyjar lagst gegn kaupunum í bréfi í september 2005, eftir að fulltrúar hreppsins skoðuðu skipið. „Ráðuneytið svaraði og bað þá að hafa engar áhyggjur." Hann segir ráðherra hafa sagt í umræðum á Alþingi að kostnaður hefði hækkað vegna ýmissa óska Grímseyinga, „en það lá alltaf fyrir að ekki nema hluti af því sem tekið var fram í útboðinu væri nóg til þess að skipið gæti orðið ferja til Grímseyjar," segir Kristján.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert