Lögreglan á Suðurnesjum segir að mikið annríki hafi verið þar í gærkvöldi, m.a. vegna unglingadrykkju í miðbæ Reykjanesbæjar. Nokkrir ölvaðir unglingar voru færðir á lögreglustöðina við Hringbraut, þar sem foreldrum þeirra var gert að sækja þau. Segir lögreglan, að 14 ára stúlka hafi m.a. fundist öfurölvi í skrúðgarði Reykjanesbæjar.
Einn ökumaður var tekinn grunaður um ölvun við akstur í Reykjanesbæ. Annar ökumaður var tekinn fyrir að aka á móti einstefnu í Reykjanesbæ og reyndist hann einnig vera með útrunnið ökuskírteini. Þá var ökumaður stöðvarður á Reykjanesbrautinni og við skoðun kom í ljós að hann hafði verið sviptur ökuréttindum ævilangt.
Einn ökumaður var tekinn fyrir of hraðan akstur á Garðvegi. Hann mældist á 125 km/klst. þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.