Securitas sér um öryggisleit á Reykjavíkurflugvelli

Securitas hf. og Flugstoðir ohf. hafa samið um að frá …
Securitas hf. og Flugstoðir ohf. hafa samið um að frá og með deginum í dag, 1. maí 2007, mun Securitas annast vopnaleit farþega á leið úr landi frá Reykjavíkurflugvelli.

Securitas mun frá og með deginum í dag annast vopnaleit- og öryggiseftirlit á Reykjavíkurflugvelli. Þetta er í fyrsta skipti sem einkafyrirtæki er falin umsjón með öryggismálum á Reykjavíkurflugvelli.

Securitas hf. og Flugstoðir ohf. hafa samið um að frá og með deginum í dag, 1. maí 2007, mun Securitas annast vopnaleit farþega á leið úr landi frá Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt alþjóðasamningum sem íslensk stjórnvöld eru aðilar að, sem og íslenskri löggjöf, þarf vopnaleit að eiga sér stað á öllum farþegum sem fljúga í farþegaflugi frá landinu. Eins og gefur að skilja er þetta gríðarlega mikilvægt fyrir alla farþega og flugöryggi almennt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Samkvæmt samningnum við Flugstoðir skal Securitas tryggja öryggisskimun á farþegum og í farangri með tilliti til hættulegs varnings sem bannað er að fara með í flugvélar og á öryggissvæði flugstöðvarinnar. Til þessa hefur þetta verkefni verið í höndum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Verkið var hins vegar boðið út á vegum Ríkiskaupa í febrúar síðast liðinn.

Fram kemur í tilkynningu að farþegar í millilandaflugi um Reykjavíkurflugvöll muni ekki verða varir við neinar breytingar á vopnaleitinni. Rétt eins og áður sé farþegum gert skylt að fara í gegnum málmleitarhlið, auk þess sem aðrar ráðstafanir séu gerðar svo tryggja megi öryggi allra. Þeir starfsmenn Securitas sem vinni að vopnaleitinni séu sérþjálfaðir og fyllstu nærgætni verði gætt í hvívetna.

Millilandaflug hefur verið vaxandi á Reykjavíkurflugvelli á síðustu árum og hefur bæði farþegum og flugvélum fjölgað mikið. Á síðasta ári fóru 33.203 farþegar um flugvöllinn og var það tæplega 28% aukning frá árinu áður. Á sama tíma fóru 5.014 millilandaflugvélar um völlinn og var það tæplega 17% aukning.

Flugstoðir er nýtt opinbert hlutafélag sem tók um síðustu áramót við rekstri og uppbyggingu allra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi utan Keflavíkurflugvallar af Flugmálastjórn Íslands. Jafnframt sér það um flugleiðsöguþjónustu fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug.

Securitas ehf. er langstærsta fyrirtækið í öryggisþjónustu hér á landi og sinnir fjölmörgum og ólíkum þáttum í öryggismálum fyrirtækja, stofnana og einstaklinga. Á meðal þeirrar þjónustu sem Securitas býður viðskiptavinum sínum upp á má nefna farandgæslu, staðbundna gæslu fyrir fyrirtæki og stofnanir og leigu og sölu á ýmis konar öryggisútbúnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert