Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sagði í ræðu á Húsavík í dag í tilefni af 1. maí, að hann hefði fyrir því heimildir að byrjað væri að undirbúa sölu Landsvirkjunar og búið væri að ákveða að Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins yrði næsti forstjóri Landsvirkjunar.
Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, sagði við Útvarpið, að ummæli Skúla væru úr lausu lofti gripin.
Skúli sagði, að í gær hefði hafist einkavæðing orkufyrirtækja í eigu ríkisins þegar ríkið ákvað að selja FL-Group og Glitni hlut sinn í Orkuveitu Suðurnesja fyrir, rúma 7 milljarða.
„Og ég fullyrði að undirbúningur að sölu Landsvirkjunar er hafinn. Haldi ríkisstjórnin velli í kosningunum 12. maí, verður það gert. Til að auðvelda söluna ætlar Landsvirkjun á næstunni að gera upp reikninga sína í dollurum, hér dugar ekki ónýtur gjaldmiðill eins og íslenska krónan. Ég hef heimildir fyrir því að Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, verði nýr forstjóri Landsvirkjunar. Leikur Framsóknarmanna, með því að skipa Pál Magnússon stjórnarformann er þá líklega sá, að tryggja Finni Ingólfssyni og S-hópnum hluta af kökunni, þegar hún verður borin fram. Viljum við þetta? Er ekkert stopp á spillinguna?" sagði Skúli í ræðunni.