„Velferð fyrir alla“

Kröfuganga í Reykjavík 1. maí 2007.
Kröfuganga í Reykjavík 1. maí 2007. mbl.is/Júlíus

Grétar Már Þorsteinsson, forseti ASÍ, gerði velferðarsamfélagið að umræðuefni sínu í ávarpi sem hann flutti á Ingólfstorgi í tilefni baráttudags verkamanna 1. maí undir yfirskriftinni „Treystum velferðina“. „Við viljum búa við velferðarkerfi sem allir geta reitt sig á. Velferð fyrir alla,“ sagði Grétar.

Grétar sagði suma stjórnmálamenn hér á landi finna velferðarkerfum flest til foráttu og telji slík kerfi að norrænni fyrirmynd ekki eftirsóknarverð. Grétar benti á hið gagnstæða þegar hann sagði: „Þau samfélög sem hafa velferðarhugsjón verkalýðshreyfingarinnar að leiðarljósi eru þau samfélög sem hafa skapað íbúum sínum mesta almenna velferð og lífsgæði. Á sama tíma eru þetta þau samfélög, norrænu velferðarsamfélögin, sem hafa reynst best búin undir framtíðina. Þau eru best búin undir þá samkeppni sem fylgir hnattvæðingunni. Þau eru best undir það búin að taka á móti þeim ógnunum sem kunna að fylgja henni. Og þau eru best undir það búin að notfæra þau sér þau tækifæri sem fylgja hnattvæðingunni,“ sagði Grétar.

Hann sagði norrænu velferðarsamfélögin einkennast af góðri menntun fyrir alla, jöfnuði og jafnrétti og traustum réttindum launafólks. „Þetta er sá grunnur sem þjóðfélag þarf að byggja á til að takast á við þau úrlausnarefni sem nútímasamfélög standa frammi fyrir.“

Grétar sagði þetta að vissu leyti lýsa íslensku samfélagi en þó vanti mikið á. „Framundan eru kjarasamningar. Í þeim munum við leggja áherslu á að tryggja og byggja ofan á þá samfelldu kaupmáttaraukningu sem undangengnir kjarasamningar hafa skilað okkur. Jafnframt hljótum við að leggja áherslu á nauðsynlegar lagfæringar á velferðarkerfinu,“ sagði Grétar og bætti því við að launajafnrétti kynjanna væri eitt brýnasta úrlausnarefni á vinnumarkaði.

Rauðir fánar blöktu í miðborginni í dag.
Rauðir fánar blöktu í miðborginni í dag. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert