Fulltrúar ríkisstjórnar og námsmanna í stjórn LÍN hafa náð samkomulagi um nýjar úthlutunarreglur fyrir skólaárið 2007-2008. Reglurnar voru samþykktar í dag og taka gildi 1. júní nk. Dregið er úr tekjutengingu námslána fimmta árið í röð og eiga námsmenn í grunnháskólanámi og sérnámi nú rétt á lánum vegna skólagjalda.
Í framhaldi af nýjum reglum er áætlað að tæplega 11.000 manns fái 10.900 milljónir króna í námslán á næsta ári.
Hlutfall tekna sem koma til skerðingar útreiknuðu láni lækkar nú úr 12% í 10%, en samsvarandi hlutfall var 40% fyrir fimm árum. Einfalt og hóflegt tekjutillit hefur þannig leyst af hólmi verulega íþyngjandi og margbrotnar reglur með frítekjumörkum og undanþágum.
Annar stór áfangi í sögu sjóðsins er sú samþykkt að námsmenn erlendis í sérnámi og grunnháskólanámi eigi rétt á lánum vegna skólagjalda. Fram til þessa hafa skólagjaldalán vegna náms erlendis verið takmörkuð við framhaldsháskólanám. Frá og með þar næsta skólaári munu svo sömu reglur gildi um skólagjaldalán vegna náms á Íslandi og erlendis.
Endurskoðun á framfærslugrunni LÍN lauk í mars sl. Sérstök framfærslunefnd skilaði þá tillögum sem nú er byggt á í nýju úthlutunarreglunum. Framfærslugrunnur LÍN er þannig hækkaður um 4,9% milli ára samhliða því sem samþykkt er að taka eingöngu mið af tekjum lánþega í fullu námi. Áður var einnig miðað við tekjur þeirra sem voru aðeins hálft ár á lánum. Viðmiðunarforsendur eru þannig áræðanlegri en áður, sem aftur treystir þá afkomutryggingu sem grunninum er ætlað að vera fyrir námsmenn.
Helstu breytingar á reglunum eru annars eftirfarandi: