Spölur hefur sent frá sér nýja gjaldskrá fyrir akstur um Hvalfjarðargöng, sem tekur gildi 7. maí. Samkvæmt gjaldskránni fjölgar gjaldflokkum fjölgar um einn og bætist við nýr flokkur fyrir ökutæki, 6-8 metrar að lengd. Þýðir það, að veggjald fyrir svokallaða pallbíla, sendibíla og fleiri ökutæki, sem lenda í þessum nýja flokki, lækkar um nær helming við breytinguna en gjald fyrir marga húsbíla hækkar.
Spölur segir, að gjald fyrir staka ferð ökutækis í þessum flokki verði 1500 krónur en það er nú 2800 krónur. Gjald fyrir hverja áskriftarferð verður 1000 krónur í stað tæplega 1900 króna nú.
Gjald fyrir marga húsbíla hækkar hins vegar þegar farið verður að innheimta fyrir þá samkvæmt II. gjaldflokki. Hingað til hafa þeir farið um göngin á lægsta gjaldi þrátt fyrir að vera allt að 7,25 metrar að lengd. Lengdarmæling allra ökutækja, og innri samræming gjaldskrár, gera það hins vegar að verkum að þessi ökutæki færast nú í II. gjaldflokk.
Veggjald í Hvalfjarðargöngum lækkaði 1. mars og lækkar verð á ýmsum áskriftarflokkum nú enn frekar. Segir í tilkynningu frá Speli, að lækkun veggjaldsins svari til þess að Spölur skerði tekjur sínar um 65 milljónir króna á ári, miðað við umferð í Hvalfjarðargöngum árið 2006.