Það rigndi á ráðherra og aðra reiðhjólagarpa þegar átakið Hjólað í vinnuna hófst í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík í morgun. Jafnframt er um að ræða fyrirtækjakeppni. Sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, að í ráðuneytinu hefðu verið mynduð nokkur lið, þar á meðal eitt sem nefnist Ljóskurnar.
Í máli Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra kom m.a. fram, að auknar hjólreiðar séu ekki eingöngu heilbrigðismál heldur einnig umhverfismál sem dragi úr notkun bifreiða og þar með menguninni sem þeim fylgi.
Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi nefndi að fjöldi bíla í Reykjavík, miðað við fjölda borgarbúa, sé svipaður því sem gerist í mestu bílaborgum Bandaríkjanna.