Átta metra risafígúra, Risessan, kemur til Reykjavíkur með skemmtileg ævintýr dagana 10. til 12. maí. Hér er um að ræða sýningu franska götuleikhússins Royal de Luxe. Verkefnið er unnið í samstarfi Listahátíðar og Fransks vors á Íslandi.
Þar sem um risavaxinn viðburð er að ræða koma fjölmargar stofnanir og fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins eins og Framkvæmdasvið, Faxaflóahafnir, Orkuveitan, Strætó b.s .o.fl, ásamt slökkviliði og lögreglu sem bæði taka þátt og hafa gætur á gangi mála.
Royal de Luxe hefur ferðast um allan heim með sýningar sínar og leyft fólki að njóta ævintýranna sem þau skapa á hverjum stað fyrir sig. Hópurinn sló m.a. í gegn í Lundúnum í maí í fyrra með söguna um soldáninn á fílnum og ennfremur vakti hópurinn mikla hrifningu í Santiago í Chile í janúar á þessu ári. Royal de Luxe hefur ferðast um nær alla Evrópu, Afríku og Asíu en fyrsta sýning þeirra á Norðulöndum verður á Íslandi.