Umsóknir um ríkisborgararétt afgreiddar ágreiningslaust innan allsherjarnefndar

Einstaklingar sækja oftast um veitingu ríkisborgararéttar eftir að hafa haft lögheimili hér á landi í tvö ár eða lengur, eru eldri en 18 ára, uppfylla ekki búsetuskilyrði og tilgreina persónulegar ástæður eða ástæður fjölskyldulegs eðlis fyrir því að sótt er um undanþágu. Þetta kemur fram í samantekt, sem allsherjarnefnd Alþingis hefur gert.

Í yfirlitinu kemur fram, að umsóknir um ríkisborgararétt berist Alþingi frá dómsmálaráðuneytinu. Það verklag hafi verið viðhaft, að það er skilyrði fyrir meðferð málsins og afgreiðslu á þinginu að fyrst hafi formlegri umsókn með öllum nauðsynlegum fylgiskjölum verið skilað til ráðuneytisins.

Í lögum um ríkisborgararétt segir að áður en umsókn um ríkisborgararétt er lögð fyrir Alþingi skal dómsmálaráðuneyti fá um hana umsögn lögreglustjóra og Útlendingastofnunar. Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði laga til þess að fá íslenskt ríkisfang getur hann óskað þess að málið verði sent Alþingi til frekari skoðunar.

Umsóknir um ríkisfang fara til allsherjarnefndar til úrvinnslu. Löng hefð er fyrir því að nefndin feli þremur nefndarmönnum að fara yfir hverja og eina umsókn og fylgiskjöl. Er það gert á fundi sem boðaður er með fulltrúa dómsmálaráðuneytis og Útlendingastofnunar. Þessir aðilar hafa áður farið yfir gögn málsins og veita nefndarmönnum frekari upplýsingar og skýringar eftir því sem þörf krefur.

Að lokinni yfirferð umsókna leggja fulltrúar nefndarinnar tillögur sínar fyrir allsherjarnefnd. Við afgreiðslu málsins geta nefndarmenn fengið skýringar, aðgang að gögnum eða upplýsingar um eðli og ástæður. Engin dæmi eru um að mál hafi verið afgreidd í ágreiningi úr undirnefnd eða frá allsherjarnefnd á þessu kjörtímabili.

Flokkunin á aðstæðum umsækjenda, sem fylgir með, sýnir ekki ástæður þess að fallist sé á beiðnina heldur eru tilgreind helstu rök sem teflt er fram af hálfu umsækjenda. Afgreiðsla mála byggir síðan á heildarmati á hverri og einni umsókn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert