Verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar sögðu dómana yfir skjólstæðingum sínum vissulega vonbrigði, en vildu ekkert fullyrða um hvort dómunum yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Settur ríkissaksóknari sagði ekki rétt að taka svo til orða að dómarnir væru léttir fyrir ákæruvaldið. Það væri alltaf alvarlegur hlutur þegar menn væru dæmdir fyrir brot.
Jón Ásgeir var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hegningalagabrot, og Tryggvi hlaut níu mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir hegningalagabrot og meiriháttar bókhaldsbrot.
Jón Ásgeir var fundinn sekur fyrir að láta Jón Gerald Sullenberger útbúa tilhæfulausan kreditreikning og rangfæra þannig bókhald Baugs. Tryggvi var dæmdur fyrir sömu sakir og einnig fyrir að láta færeyska fyrirtækið SMS útbúa tilhæfulausan kreditreikning.
Ákæru á hendur Jóni Gerald, vegna útgáfu á kreditreikningnum, var vísað frá.