Fjarðabyggð og Alcoa Fjarðaál semja um slökkviliðsþjónustu

Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri Fjarðabyggðar, og Erna Indriðadóttir, framkvæmdastjóri samfélags- …
Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri Fjarðabyggðar, og Erna Indriðadóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og upplýsingamála hjá Alcoa Fjarðaáli, kynna samninginn. mbl.is/Helgi Garðarsson

Fulltrúar Alcoa Fjarðaáls og Fjarðabyggðar staðfestu í dag með formlegum hætti samstarfssamning um rekstur slökkviliðs. Hið nýja slökkvilið Fjarðabyggðar verður fyrsta atvinnuslökkviliðið á Austurlandi.

Slökkvilið Fjarðabyggðar verður 12 manna atvinnulið á Reyðarfirði auk 45 slökkviliðsmanna í hlutastarfi í Neskaupsstað, Fáskrúðsfirði og á Stöðvarfirði. Þá verða 50 starfsmenn Alcoa Fjarðaáls þjálfaðir og tiltækir sem slökkviliðsmenn þegar þörf krefur.

Þjálfun liðsmanna verður í samræmi við kröfur Brunamálastofnunar, Sjúkraflutningaskólans og Alcoa. Auk slökkvistarfa mun liðið sinna eldvarnaeftirliti, sjúkraflutningum og neyðarþjónustu, t.d. vegna mengunarslysa.

Aðsetur slökkviliðs Fjarðabyggðar verður í nýrri rúmlega eitt þúsund fermetra öryggismiðstöð sem verið er að reisa að Hrauni, steinsnar frá lóð Alcoa Fjarðaáls. Húsið, sem verður á tveimur hæðum að hluta, verður afhent fullbúið í haust. Á jarðhæð verður bílageymsla, aðstaða fyrir búnað og búningsklefar fyrir starfsmenn en á efri hæð aðstaða fyrir vaktmenn og sameiginlegt rými. Þar verða einnig skrifstofur slökkviliðsstjóra, eldvarnaeftirlits og vaktstjóra. Um leið og nýja húsnæðið verður tekið í notkun verða núverandi slökkvistöðvar á Reyðarfirði og Eskifirði lagðar niður.

Samkvæmt samningi um rekstur greiðir Alcoa sem svarar launum fyrir þrjú stöðugildi og leggur til uppbyggingar öryggismiðstöðvarinnar það fé sem annars hefði verið lagt til sambærilegra verkefna innan fyrirtækisins. Alcoa Fjarðaál mun jafnframt leggja til 50 manna útkallslið, þar sem átta manns verða ávallt til taks á hverri vakt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert