Jón Ásgeir og Tryggvi dæmdir í skilorðsbundið fangelsi

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, Jakob R. Möller, verjandi Tryggva, …
Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, Jakob R. Möller, verjandi Tryggva, og Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/ÞÖK

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, voru fundnir sekir um hluta ákæruliðanna í Baugsmálinu svonefnda. Jón Ásgeir var dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi og Tryggvi í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hluta af ákæruliðunum var vísað frá, þar á meðal ákæru á hendur Jóni Gerald Sullenberger. Enginn hinna ákærðu var viðstaddur dómsuppkvaðninguna.

Lögmenn sakborninga vildu lítið segja að dómsuppkvaðningu lokinni þar sem þeir hefðu ekki séð forsendur dómsins enn. Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, sagði við fréttamenn eftir að dómurinn var kveðinn upp, að það væru vonbrigði að komið hefði til einhverrar sakfellingar. Jakob R. Möller, lögmaður Tryggva, sagði að það hefði aldrei hvarflað að sér að refsingin yrði svona þung en hann lagði áherslu á að dómurinn væri skilorðsbundinn. Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds, fagnaði niðurstöðunni.

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, vildi heldur ekki tjá sig mikið þar til hann hefði lesið dóminn og sagði að dómsorðið segði lítið í sjálfu sér. Hins vegar hefði ákæruvaldið gefið út ákæru vegna þess að það trúði að sekt væri fyrir hendi í öllum þessum ákæruliðum.

Ákæruliðum 2-9 var vísað frá á þeim forsendum að refsiheimild hlutafjárlaga væri ekki nægilega skýr. Sýknað er af ákæru fyrir meint brot vegna skemmtibáts á Flórída.

Sigurður Tómas var spurður hvort það væri léttir fyrir ákæruvaldið, að sakfellt hefði verið í málinu en hann svaraði að það væri alltaf alvarlegur hlutur þegar menn væru sakfelldir. Um skilorðsbindingu refsingarinnar sagði hann, að hún gæti verið af ýmsum ástæðum. Um væri að ræða menn með hreint sakavottorð fram að þessu, og einnig hefði liðið nokkuð langur tími frá því brotin voru framin og þar til ákæra var gefin út.

Dómurinn í Baugsmálinu

Dómssalur 1 var þétt setinn þegar dómurinn í Baugsmálinu var …
Dómssalur 1 var þétt setinn þegar dómurinn í Baugsmálinu var kveðinn upp. mbl.is/ÞÖK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert