Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi bæði Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggva Jónsson fyrir brot á hegningarlögum með því að láta Jón Gerald Sullenberger útbúa tilhæfulausan kreditreikning frá Nordica Inc. fyrir upphæð að fjárhæð nærri 62 milljónir króna og rangfæra með því bókhalds Baugs.
Dómurinn vísaði hins vegar frá dómi ákæru á hendur Jóni Gerald fyrir að hafa aðstoðað Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs og stuðla að bókhaldsbroti þeirra með því að útbúa framangreindan kreditreikning að tilhlutan Jóns Ásgeirs og samkvæmt fyrirsögn Tryggva. Segir dómurinn að þegar við fyrstu lögregluyfirheyrslu í ágúst 2002 og alltaf eftir það hafi lögreglu borið að láta Jón Gerald njóta réttarstöðu sakaðs manns en hann hafi haft stöðu vitnis alla rannsókn málsins þótt hann væri í raun að tjá sig um atriði er hefðu getað leitt til ákæru á hendur honum.
Í dómnum segir, að kreditreikningurinn hafi verið rangur og tilhæfulaus og þeim Jóni Ásgeiri og Tryggva hafi báðum verið það ljóst. Brot þeirra hafi haft áhrif á árshlutauppgjör Baugs og þar af leiðandi hafi tilkynning félagsins til Verðbréfaþings Íslands verið röng. Á því hafi Jón Ásgeir borið ábyrgð sem framkvæmdastjóri félagsins.
Jón Ásgeir sakfelldur fyrir 1 ákærulið og Tryggvi fjóra
Dómurinn vísar 10 liðum ákærunnar frá og Jón Ásgeir er sýknaður af öllum öðrum ákæruatriðum. Tryggvi er hins vegar sakfelldur fyrir þrjá aðra ákæruliði, þar á meðal fyrir hegningarlagabrot með því að láta forsvarsmenn verslunarinnar P/F SMS í Færeyjum gera kreditnótu og færa í kjölfarið til tekna hjá Baugi 46,7 milljónir króna. Talið er ósannað að Jón Ásgeir hafi vitað af þessari færslu.
Tryggvi er einnig fundinn sekur um meiri háttar bókhaldsbrot samkvæmt tveimur ákæruliðum, sem snúast um tilhæfulausar færslur um viðskipti og notkun fjármuna í bókhald Baugs.
Þeir Jón Ásgeir og Tryggvi eru sýknaðir af ákæruliðum sem snúa að greiðslum frá Baugi til Nordica en sem að mati ákæruvaldsins fóru í rekstur skemmtibátsins Thee Viking. Segir í dómnum, að umræddir fjármunir hafi ekki runnið til félagsins Gaums, eins og segi í ákæru, heldur til Nordica en þeir Jón Ásgeir og Tryggvi séu ekki ákærðir fyrir að hafa dregið féð því félagi. Ekki megi dæma ákærðan mann fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greini og með því að ósannað sé, að ákærðu hafi dregið Gaumi fé, eins og þeir séu ákærðir fyrir, verði þeir sýknaðir af þessum lið ákærunnar.
Þá er vísað frá ákæru hendur Tryggva fyrir að láta Baug greiða Nordica í Bandaríkjunum í 13 skipti reikninga, sem gefnir voru út vegna persónulegra útgjalda Tryggva. Segir dómurinn, að ákæran sé ekki nægilega skýr og sundurliðuð.
Málskostnaður fellur að mestu á ríkissjóð
Málskostnaður fellur, samkvæmt niðurstöðu dómsins, að mestu á ríkissjóð. Ákæran í málinu var upphaflega í 19 liðum en fyrsat lið hennar var vísað frá dómi á síðasta ári og í dómnum nú var 10 liðum til viðbótar vísað frá dómi auk ákæru á hendur Jóni Gerald.
Málsvarnarlaun Gests Jónssonar, verjanda Jóns Ásgeirs, eru ákveðin 15,3 milljónir og greiðast að 9/10 hlutum úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun Jakobs R. Möller, verjanda Tryggva, eru ákveðin 11,9 milljónir og greiðast þau að 4/5 hlutum úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar, verjanda Jóns Geralds, eru ákveðin 7,9 milljónir og öll greidd úr ríkissjóði. Sakarkostnaður setts ríkissaksóknara nemur 55,8 milljónum og eru Jón Ásgeir og Tryggvi dæmdir til að greiða hluta þess kostnaðar, eða 5 milljónir króna.
Þá er fallist á ýmsan kostnað vegna varnar Jóns Ásgeirs, eða 25,7 milljónir króna og þarf hann að greiða 1/10 hluta hans, en 9/10 eru greiddir úr ríkissjóði.