Atvik við leikskóla í Reykjavík í síðustu viku þar sem sex ára drengur með þroskafrávik olli skemmdum á bílum með því að kasta í þá möl hefur sett móður hans í þá stöðu að þurfa að velja milli tveggja kosta, þ.e. að greiða tjónið sjálf, eða kæra starfsfólk leikskólans fyrir vanrækslu.
Ásta Jónsdóttir, móðir drengsins, segir son sinn tilheyra svokölluðu "gráu svæði" þar sem fagaðstoð í boði fyrir fjölskylduna fer eftir efnahag viðkomandi. Það sem vekur þó mesta undrun hennar er að dagvistunaryfirvöld firra sig allri ábyrgð á skemmdum sem drengurinn olli á bílunum þótt atvikið hafi hent á leikskólatíma.
"Þessi viðbrögð vekja eðlilega þá spurningu mína, hvers vegna ég sé að greiða fyrir gæslu á leikskólanum úr því að ég sem foreldri þarf að ábyrgjast hugsanleg óhöpp – að ég tali ekki um slys – sem kunna að eiga sér á leikskólatímanum," segir Ásta. "Ef svona er að málum staðið, hvers vegna er foreldrum þá ekki gerð rækileg grein fyrir þessu? Ég átta mig ekki á því hvernig foreldrar eiga að geta stundað vinnu sína ef þeir þurfa jafnframt að gæta þess að leikskólinn gæti barna þeirra."
Ásta segir að sonur hennar hafi augljóslega athafnað sig drjúga stund ótruflaður við að skemma bílana og því sé ljóst að hann hafi ekki verið í gæslu þann tíma, jafnvel þótt öllum hafi verið ljóst að hann ætti við sín hegðunarvandamál að etja og mætti ekki vera eftirlitslaus að neinu marki.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs, sagðist ekki þekkja til þessa máls en sagði að það yrði kannað í dag.