Treysta ríkisstjórninni betur en viðskiptalífinu

Íslenskir áhrifavaldar treysta ríkisstjórninni betur en viðskiptalífinu, fjölmiðlum, frjálsum félagasamtökum og trúfélögum. Um 54% þeirra bera frekar mikið eða mikið traust til ríkisstjórnarinnar, 46% treysta viðskiptalífinu, 35% fjölmiðlum og lestina reka frjáls félagasamtök (25%) og trúfélög (11%). Í sambærilegri alþjóðlegri könnun nýtur viðskiptalífið hins vegar að jafnaði meira trausts en ríkisstjórnir í öllum heimshlutum.

Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar rannsóknar Capacent Gallup og AP almannatengsla á trausti íslenskra „áhrifavalda“, en rannsóknin er sambærileg alþjóðlegri könnun sem almannatengslafyrirtækið Edelman hefur framkvæmt síðustu átta ár. Niðurstöðurnar voru kynntar á málþingi í Salnum í Kópavogi í dag.

Einungis 22% íslenskra áhrifavalda segjast treysta smásöluverslun frekar mikið eða mikið. Þetta er umtalsvert minna traust en mælist í alþjóðlegu könnuninni, þar sem að meðaltali 61% segjast treysta smásöluverslun. Af þeim geirum sem mældir voru hér á landi nýtur einungis skemmtanaiðnaður minna trausts (5%).

Heilbrigðisgeirinn nýtur langmests trausts hér á landi, en 79% segjast bera frekar mikið eða mikið traust til hans. Næst koma tæknifyrirtæki (62%), bankar (56%), orkufyrirtæki (52%) og sérfræðingar (50%). Athygli vekur að íslenskir áhrifavaldar treysta heilbrigðisgeiranum mun betur en erlendir, því að meðaltali treysta 63% svarenda í þróuðum löndum heilbrigðisgeiranum og 57% í þróunarlöndunum.

Þegar spurt er hversu áreiðanlegar upplýsingar og umfjöllun um einstök fyrirtæki eru eftir því hvaðan þær eru fengnar kemur í ljós að íslenskir áhrifavaldar telja útvarpsfréttir áreiðanlegastar. Um 75% segja þær vera frekar eða mjög áreiðanlegar, en fast á hæla þeim með 74% koma greinar í viðskiptablöðum og skýrslur frá verðbréfa- eða greiningarfyrirtækjum. Sjónvarpsfréttir ná 66% en greinar í dagblöðum ekki nema 42%. Minnstur er áreiðanleiki auglýsinga (5%), bloggsíðna og skemmtiefnis svo sem kvikmynda og sjónvarpsþátta (3%).

Könnun Capacent Gallup er sambærileg traustskönnun Edelman, en hún mælir viðhorf skilgreindra áhrifavalda. Þeir eru háskólamenntað fólk á aldrinum 35-64 ára sem fylgist með fjölmiðlum og hefur heildartekjur yfir 400.000 krónum á mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert