Áhugamenn um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fylgjast nú grannt með stjórnarkreppunni í Tyrklandi. Þróun mála þar kynni nefnilega að hafa áhrif á útkomuna þegar kosið verður á milli Tyrklands, Íslands og Austurríkis um tvö laus sæti í október 2008.
Herinn í Tyrklandi lýsti því yfir sl. föstudag, eftir að fyrsta umferð forsetakosninga fór fram í tyrkneska þinginu, að hann myndi standa vörð um hið veraldlega þjóðskipulag, nú sem endranær. Túlkuðu sumir þá yfirlýsingu sem hótun um valdarán.
Forsaga málsins er sú að stjórnarflokkur Erdogans forsætisráðherra – en sá er hófsamt afsprengi íslamskrar hreyfingar sem á sínum tíma var bannað að starfa í Tyrklandi – tilnefndi Abdullah Gul í embætti forseta, sem losnar í sumar.
Veruleg andstaða er við það í Tyrklandi að bæði forseti og forsætisráðherra komi úr stjórnarflokknum og kom það m.a. í ljós á sunnudag þegar um milljón manns tók þátt í mótmælum í Istanbul. Óttast margir að það yrði til að grafa undan hinu veraldlega þjóðskipulagi sem hefur verið við lýði í Tyrklandi allt frá stofnun lýðveldis 1923.
Eitt og hálft ár er þar til kosið verður milli Íslands, Tyrklands og Austurríkis og aðstæður geta breyst á skömmum tíma. Væringarnar í Tyrklandi undanfarna daga hafa t.a.m. valdið niðursveiflu á þarlendum fjármálamörkuðum en rifja má upp í því samhengi að Tyrkir hættu við framboð til öryggisráðs SÞ 1996 vegna fjármálakreppu í landinu.
Lítill vafi leikur hins vegar á því að Tyrkir glata atkvæðum þjóða sem mikið leggja upp úr því að virðing sé borin fyrir lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu ef herinn tekur völdin í landinu. Simon Chesterman, sérfræðingur um málefni SÞ, nefnir til samanburðar að framboð Taílendingsins Surakiarts Sathirathai til embættis framkvæmdastjóra SÞ í fyrra hafi beðið mikinn skaða þegar herinn í Taílandi tók skyndilega völdin í landinu. Ekki sé þó gefið að tyrkneski herinn grípi inn í. Pólitískt umrót muni vissulega vara um sinn en ekki sé víst að það út af fyrir sig skaði framboð Tyrklands, þvert á móti sé hugsanlegt að menn myndu vilja styrkja stöðu lýðræðislegra stjórnvalda í landinu með því að kjósa þau til setu í öryggisráði SÞ.
Segir úrskurðinn | 16