Krabbameinsfélagið fær gjafir að andvirði 120 milljóna

Í tengslum við aðalfund Krabbameinsfélagsins sem haldinn var í dag, föstudaginn 4. maí 2007, var félaginu afhent langstærsta gjöf sem því hefur borist, að andvirði 120 milljónir króna. Gefendur eru fimm hjón sem vilja stuðla að framförum í leit að brjóstakrabbameini. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

Gjafaféð rennur til kaupa á þremur tækjum til stafrænnar brjóstamyndatöku og kemur til viðbótar styrkjum sem Glitnir og Kaupþing höfðu gefið til kaupa á tveimur tækjum. Hvert tæki kostar 40 milljónir króna. Eitt tæki er gefið sameiginlega af Önnu Lísu Sigurjónsdóttur og Hreiðari Má Sigurðssyni og Arndísi Björnsdóttur og Sigurði Einarssyni. Annað tæki er gefið af Þuríði Reynisdóttur og Ágústi Guðmundssyni og Guðrúnu Rut Eyjólfsdóttur og Lýði Guðmundssyni. Þriðja tækið er gefið af Heather Bird Tchenquiz og Robert Tchenquiz.

Arndís Björnsdóttir hafði orð fyrir konunum fimm sem afhentu gjöfina í dag, og sagði við það tækifæri að öllum konum væri ljós þýðing þess að eiga kost á skipulegri leit að sjúkdómum. Það væri því verðugt verkefni að styrkja Krabbameinsfélagið til þess að bæta enn frekar góðan árangur sinn af brjóstakrabbameinsleit. Um leið vonuðust gefendur til þess að nýju tækin yrðu konum á Íslandi hvatning til þess að mæta enn betur til myndatöku en þær hafa gert hingað til.

Með þessari gjöf hafa skapast forsendur til þess að bjóða út tímabæra endurnýjun á tækjabúnaði röntgendeildar Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Endurnýjunin hefur í för með sér gjörbreytingu á vinnslu mynda, úrlestri, geymslu og aðgengi að þeim. Hún leiðir einnig til byltingar í vinnumhverfi röntgenlækna og geislafræðinga. Nýja tæknin gefur möguleika á nákvæmari greiningu lítilla æxla og gagnast aðferðin best í brjóstum yngri kvenna og hjá þeim sem hafa þéttan brjóstvef. Auk þess nota þessi tæki mun minni geislaskammta en áður þekkist.

Leitarstöðin þarf samtals fimm tæki til þess að skapa heildstætt og samtengt kerfi, þrjú tæki til notkunar í höfuðstöðvunum í Skógarhlíð í Reykjavík, eitt tæki sem notað verður á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og hið fimmta verður nýtt sem fartæki á landsbyggðinni. Áætlað er að hug- og vélbúnaður sem tengist tækjunum fimm muni kosta um 130 milljónir króna.

Sigurður Björnsson formaður Krabbameinsfélags Íslands, Guðrún Agnarsdóttir forstjóri og Kristján Sigurðsson sviðstjóri Leitarsviðs veittu gjöfinni viðtöku og sagði Sigurður að hún væri ómetanleg og sýndi stórhug íslensks athafnafólks. Hann sagði að gjöfin væri í rauninni til þjóðarinnar allrar og til almannaheilla. Bætt sjúkdómsgreining á algengasta illkynja sjúkdómi kvenna á Íslandi væri allra hagur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert