Menntamálaráðherra og samgönguráðherra hafa undirritað samninga um samstarf menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis við samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Vestfjörðum, Suðurlandi og Suðurnesjum um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu.
Er þetta í fyrsta sinn sem gengið er til slíks samstarfs við þessa landshluta en áður hefur verið gengið til samstarfs við Austurland árið 2001 og Vesturland árið 2005 með sambærilegum hætti. Með þessu er landið allt, utan höfuðborgarsvæðisins, nú tengt saman með menningarsamningum.
Í tilkynningu segir, að tilgangur menningarsamninganna sé að efla menningarstarf á viðkomandi landsvæði og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt starf í einn farveg. Jafnframt séu áhrif sveitarfélaga á forgangsröðun verkefna aukin.
Ríkið leggur til framlög til samninganna en sveitarfélögin leggja jafnframt fram fé til sameiginlegra verkefna hvort heldur er með framlögum frá einkaaðilum eða með eigin framlögum. Framlög ríkisins nema á þessu ári alls 196 milljónir til menningarsamninganna sjö. Þá skal við það miðað að árið 2008 nemi framlag sveitarfélaganna a.m.k. 17,5% af þeirri heildarfjárhæð sem veitt er til verkefnastyrkja og 25% árið 2009. Þá skulu sveitarfélögin greiða að lágmarki þriðjung kostnaðar vegna starfsemi Menningarráðsins árið 2008 og helming kostnaðar árið 2009. Gildistími samninganna er til ársloka 2009.