Vísinda- og fræðamiðstöð byggð upp á Keflavíkurflugvelli

Nýtt hlutafélag verður stofnað formlega í dag um miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, sem áformað er að byggja upp í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Heildarhlutafé félagsins er rúmar 300 milljónir króna en meðal hluthafa eru Háskóli Íslands og lykilfyrirtæki í útrás íslensks atvinnulífs erlendis, ásamt fyrirtækjum og félögum á Suðurnesjum. Um er að ræða stærstu fjárfestingu einkaaðila í íslensku menntakerfi frá upphafi.

Félaginu, sem hljóta mun nafnið Keilir, Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, er ætlað að byggja upp háskólasamfélag í gömlu herstöðinni og leiða þar saman fyrirtæki og háskóla, þekkingu og fjármagn, hvoru tveggja til nýsköpunar og útrásar í íslenskum menntamálum. Enskt heiti félagsins er Keilir, Atlantic Center of Exellence.

Samkvæmt samstarfssamningi félagsins og Háskóla Íslands, sem undirritaður verður við athöfnina síðdegis í dag, munu aðilar sameiginlega byggja upp alþjóðlegt háskólanám á Keflavíkurflugvelli í þeim tilgangi að laða til Íslands erlenda kennara og háskólanema. Jafnframt munu Keilir og Háskóli Íslands standa sameiginlega að þróun háskólanáms og kennslu, sérstaklega á sviðum orkuvísinda og umhverfismála, jarðvísinda, sjálfbærrar þróunar, verkfræði, ferðamála, lífríkis hafsins, norðurslóðarrannsókna, samgöngumála, alþjóða- og öryggismála.

Þegar hefur þróunarhópur hafið störf á sviði orkuvísinda- og umhverfismála með aðild helstu rannsóknarstofnana landsins á því sviði, auk lykilfyrirtækja á sviði orkumála. Formaður þess þróunarhóps er einn virtasti vísindamaður Íslendinga á sviði orkurannsókna, dr. Þorsteinn Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka