Ferðir risessunnar um Reykjavík gefnar upp

Sýning franska götuleikhússins Royal de Luxe fer fram í miðborg Reykjavíkur dagana 10. til 12. maí í tengslum við Listahátíð. Þá daga mun 8 metra há risafígúra, risessan, arka um götur borgarinnar og geta borgarbúar fylgst með leikverki þar sem sem risessan og faðir hennar, risinn, takast á.

Leikverkið fjallar um það, að fornleifastofnun Frakklands finnur goshver undir götum Reykjavíkurborgar. Leiðangursmenn rekast þar á sofandi risa, sem hefur legið í dvala undir borginni í hundrað ár. Þegar ró risans er raskað lætur hann öllum illum látum og eyðileggur nálæga bíla með tröllvöxnum hnífapörum sínum. Yfirvöld setja sig í samband við dóttur risans, risessuna, og biðja hana um að koma til Reykjavíkur að róa almenning. Hún dvelst í borginni í tvo daga og reynir að tæla föður sinn í átt að höfninni.

Leiðir risessunnar og risans verða í stórum dráttum þessar dagana 11. og 12. maí:

Föstudagur 11. maí:

Kl. 10:30. Risessan vaknar við Hljómskálann og gengur af stað Fríkirkjuveg, Pósthússtræti, Tryggvagötu, Hafnarstræti, Lækjartorg, Skólavörðustíg og upp að Hallgrímskirkju. Þar leggur hún sig um kl. 13.

Kl. 15 heldur hún aftur af stað frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg, upp Laugaveg, Snorrabraut og gengur eftir Sæbrautinni að hafnarbakkanum en þar mun hún leggjast til svefns.

Laugardagur 12. maí:

Kl. 10:30 Risessan vaknar á hafnarbakkanum og fer í sturtu. Hún gengur inn á Ingólfstorg, Aðalstræti, Lækjargötu og Fríkirkjuveg þar sem hún hittir fyrir risann um kl. 11:30.

Kl. 15. Lokagangan hefst frá Lækjartorgi, upp Hverfisgötuna, Snorrabraut, Sæbraut og að hafnarbakkanum þar sem lokaatriðið hefst um kl. 17.

Auk Listahátíðar og frönsku menningarveislunnar Pourquoi Pas? - Franskt vor á Íslandi 2007 er verkefnið unnið í samvinnu við Reykjavíkurborg. Einnig koma fjölmargar stofnanir og fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins. Um 200 manns koma að sýningu götuleikhússins hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert