Illa lítur út með arnarvarp í ár. Að sögn Náttúrufræðistofnunar er aðeins vitað um 33 arnarhreiður nú í vor samanborið við allt að 44 á síðustu árum ár. Arnarstofninn er nú talinn 64 fullorðin pör og virðist standa í stað eftir hægan en samfelldan vöxt um langt skeið. Stofnunin segir að meira hefur borið á vísvitandi truflun á varpslóðum arna en endranær og fannst m.a. skotinn örn við Breiðafjörð nú í apríl.
Þrátt fyrir alfriðun í nær heila öld finnast öðru hverju skotnir ernir. Í lok apríl fannst nýdauður, fullorðinn örn við Breiðafjörð og sáust a.m.k. fjögur högl á röntgenmynd sem tekin var af fuglinum.
Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar arnarstofninn í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Náttúrustofurnar í Stykkishólmi, Bolungarvík og Sandgerði.