Íbúar í hverfinu í kringum Njálsgötu safna nú undirskriftum gegn fyrirhugaðri staðsetningu heimilis fyrir heimilislausa að Njálsgötu 74. Um hundrað manns hafa skrifað undir mótmælaskjal þessa efnis. Íbúarnir segjast í tilkynningu ósáttir bæði við staðsetningu heimilisins og við afgreiðslu málsins hjá borgaryfirvöldum.
Eru yfirvöld gagnrýnd fyrir skort á samráði við íbúa og skort á kynningu á fyrirhugaðri starfsemi í hverfinu. "Einu samskiptin sem borgaryfirvöld höfðu í upphafi máls við íbúa hverfisins var tilskipun í bókun velferðarráðs þar sem segir að velferðarráð vænti þess að íbúar í hverfinu taki starfseminni fagnandi," segir í tilkynningunni og bætt við að íbúar hafi fyrst heyrt af málinu í fréttum hinn 25. apríl síðastliðinn og að borgaryfirvöld hafi sent bréf til sumra íbúa hinn 27. apríl, nokkrum dögum eftir að ákvörðunin var tekin.
Staðsetning heimilisins er af íbúunum, sem að mótmælunum standa, talin í þversögn við yfirlýsta stefnu borgarinnar í félagsmálum. Þetta verði þriðja stóra húsnæðið á vegum félagsmálayfirvalda í næsta nágrenni. "Það virðist því vera sem tekin hafi verið ákvörðun um það hjá borgaryfirvöldum að gera þetta litla svæði að samanþjöppuðu úrræði á vegum félagsmálayfirvalda," segir í tilkynningunni. "Hefði maður haldið að slík stefna heyrði sögunni til og frekar væri stefnt að því að dreifa slíkum úrræðum um borgina."
Segjast íbúarnir hafa áhyggjur af öryggi barna í hverfinu gangi fyrirætlanir borgaryfirvalda eftir, sem og áhrifum staðsetningar heimilisins á fasteignaverð og endursölumöguleika fasteignaeigenda. Í nokkurra metra fjarlægð frá Njálsgötu 74 sé leikskólinn Barónsborg og erfitt sé að sjá að rekstur heimilisins fari vel saman við rekstur leikskóla í næsta nágrenni. Þá hafi mikið af ungu barnafólki keypt eignir á svæðinu og lagt fjármagn í að gera þær upp. Fasteignasali, sem leitað hafi verið til, segi hins vegar að erfitt verði að selja eignir í hverfinu eftir að starfsemi heimilisins hefjist. Hér sé um aleigu íbúanna að ræða og yfirvöld séu með aðgerðum sínum að rýra eignir þeirra.