eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur
vjon@mbl.is
Sex af átta starfandi lýtalæknum á Íslandi framkvæmdu samtals 689 fegrunaraðgerðir á árinu 2006. Flestar aðgerðir voru gerðar á augnlokum, eða 203, brjóstastækkanir voru 168, svuntuaðgerðir 95 (oftast til að laga slit eða fellingar á neðanverðum kvið), fitusog 78 og andlitslyftingar 29.
Tveir lýtalæknar hafa ekki orðið við tilmælum Landlæknisembættisins frá 19. mars sl., á fundi með stjórn Félags lýtalækna, um að senda embættinu skrá yfir aðgerðir sem þeir framkvæmdu á árinu. Matthías Halldórsson landlæknir segir að erfitt hafi verið að fá þessar upplýsingar hjá nokkrum lýtalæknum þrátt fyrir að margkallað hafi verið eftir þeim.
Honum finnst óeðlilegt að umfang fegrunarskurðaðgerða og annarra aðgerða á einkastofum liggi ekki fyrir hjá embættinu og fagnar nýjum lögum um Landlæknisembættið, sem samþykkt voru á Alþingi í mars og taka gildi í september n.k. Lögin kveða á skýrari hátt en áður á um að landlækni beri að safna og vinna úr upplýsingum á sviði heilbrigðisþjónustu og að það eigi einnig við um einkastofur.
Nánari umfjöllun er í Morgunblaðinu í dag.