Átta bátar sem ætlaðir eru til stangaveiða voru afhentir fyrirtækinu Hvíldarkletti á Suðureyri í síðustu viku. Hvíldarklettur lét smíða fyrir sig 22 báta hjá Seiglu á Akureyri og eru fleiri væntanlegir seinna í mánuðinum. Bátarnir eru sjö og hálfur metri á lengd og tveir og hálfur á breidd og hafa bátarnir 160 hestafla vélar.
Smíði bátanna hefur gengið hratt fyrir sig hún hófst um miðjan febrúar á þessu ári eftir að félögin tóku við samningi um sjóstangveiði hjá ferðaskrifstofunni Angelreisen í þýskalandi. Fjöldi manns hefur staðið vaktir við framleiðslu bátanna en smíði þeirra fór fram í nýju húsnæði Seiglu.
Bátarnir voru fluttir frá Akureyri á bílum og settir í sjó við bryggjuna á Arngerðareyri í Ísafirði þaðan sem siglt var til Suðureyrar. Hátt í 1500 manns hafa bókað bátana í vikuleigu nú í sumar hjá Hvíldarkletti. Félagið útvegar einnig húsnæði fyrir gestina en félagið hefur unnið í vetur að endurbótum á fasteignum á Suðureyri til útleigu.