Botnrannsóknir vegna nýs sæstrengs í sumar

Stefnt er að því að nauðsynlegar botnrannsóknir vegna lagningar nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu fari fram í sumar. Samgönguráðuneytið hefur haft forgöngu um undirbúningsvinnuna og er stefnt að því að nýr sæstrengur verði tekinn í notkun haustið 2008.

Samgönguráðherra skipaði sl. sumar starfshóp sem gera átti tillögu um hvernig tryggja megi varasamband fjarskipta við umheiminn í framtíðinni. Í starfshópnum voru fulltrúar stjórnvalda, fjarskiptafyrirtækja og atvinnulífsins.

Starfshópurinn lagði til að nýr sæstrengur yrði lagður frá Íslandi til Evrópu og lagði í því sambandi til ákveðna aðgerðaráætlun. Í framhaldinu samþykkti ríkisstjórnin að fela samgönguráðherra að hefja undirbúning að lagningu nýs sæstrengs. Leitað yrði samstarfs við fjarskiptafyrirtækin og aðra hagsmunaaðila um mögulega fjármögnun. Í byrjun árs 2007 hófst undirbúningsvinna undir forystu samgönguráðuneytisins með þátttöku annarra hluthafa í E-Farice ehf., eignarhaldsfélaginu sem fer með hlut Íslands í Farice sæstrengnum.

Skipaðir voru leiðarvals- og fjármögnunarhópar en hlutverk þessara hópa hefur verið að fara yfir hvaða kostir koma helst til greina hvað varðar legu sæstrengs milli Íslands og Evrópu og bera þá saman út frá ýmsum þáttum svo sem: Stofnkostnaði, rekstrarkostnaði, aðgengi að landstrengjum við landtökustað, áhættu vegna fiskveiða og annarra þátta og áhrifa á uppbyggingu nýrrar þjónustu hér á landi t.d. gagnaþjónustumiðstöðva. Lagt var til að E-Farice ehf. tæki við yfirumsjón verkefnisins sem var samþykkt á stjórnarfundi 27. mars sl. Stefnt er að því að nauðsynlegar botnrannsóknir fari fram í sumar og verður öðrum áhugasömum aðilum boðin þátttaka í verkefninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert