Fjármálaráðherra: Stóriðja ekki forsenda framfara

Þátttakendur í pallborði á fundi Framtíðarlandsins um stóriðju.
Þátttakendur í pallborði á fundi Framtíðarlandsins um stóriðju. mbl.is/G. Rúnar

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði á morgunverðarfundi Framtíðarlandsins í morgun að stóriðja væri ekki forsenda framfara hér á landi. Framfarir á næstu árum verði hins vegar meiri með frekari stóriðju en ella. Þá sagði hann samanburð á sögulegum tölum sýna að hagvöxtur hér á landi hefði verið meiri á tímum stóriðjuuppbyggingar en öðrum tímabilum.

Árni sagði atkvæðagreiðslu um stækkun álversins í Straumsvík og nýja spá fjármálaráðuneytis hins vegar marka ákveðin þáttaskil en spáin sýni meiri hagvöxt á næstu árum, en gert hafi verið ráð fyrir, og það án frekari stóriðju. Þar komi einnig fram að fleiri atvinnugreinar en stóriðjan hafi lagt sitt að mörkum til hagvaxtar undanfarinna ára.

Þá sagðist hann vonast til að ekki verði aftur jafn umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir í gangi á sama tíma og verið hafi að undanförnu enda þoli íslenskt efnahagslíf síður svo stórar framkvæmdir eftir því sem landsframleiðsalan byggi á fjölbreyttari grunni.

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur greiningardeildar Kaupþings, sagði á fundinum að hagvöxtur væri nauðsynlegur en hagvöxtur síðustu ára hafi byggst mikið á betri samvinnu á milli fólks. Þá sagði hann stóriðju hafa óveruleg áhrif á hagvöxt til lengri tíma litið. Hún hafi gríðarleg skammtímaáhrif á meðan verið sé að byggja upp en sé engin sérstök forsenda hagvaxtar á Íslandi. Hún hafi haft mikil áhrif hér á landi á síðustu áratugum þar sem hún hafi haft áhrif á tímabilum þegar lítið var að öðru leyti um að vera í atvinnulífinu. Ekki hittist eins vel á núna en kreppa hafi verið í samfélaginu þegar stefnan var mörkuð og fólk hafi ekki gert sér grein fyrir að hún gengi jafn fljótt yfir og raun bar vitni.

Ásgeir benti einnig á að þensluáhrif m.a vegna stóriðjuframkvæmda hafi reynst fyrirtækjum í þekkingariðnaði svo erfið að jafnvel sé talað um beina atlögu að þeim. Þá sagði hann uppgang fjármálafyrirtækja einnig hafa reynst þekkingariðnaðinum erfiður þar sem fjármálafyrirtækin taki stafsmenn frá þekkingarfyrirtækjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert