Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur skipað Helga Torfason í embætti safnstjóra Náttúruminjasafns Íslands til fimm ára, frá 8. maí. Náttúruminjasafn Íslands er ný stofnun sem stofnuð var með lögum um Náttúruminjasafn Íslands.
Safninu er ætlað að vera höfuðsafn á sviði náttúrufræða og hefur það hlutverk að varpa ljósi á náttúru Íslands, sögu landsins, nýtingu og náttúruvernd.
Helgi Torfason er doktor í jarðfræði frá University of Liverpool. Hann hefur starfað sem verkefnastjóri jarðhitamála hjá Orkustofnun og þar áður sem sviðsstjóri jarðfræðisviðs og fagsviðsstjóri hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.