Reykjavík og ósnortin náttúra laða menntað fólk til landsins

Magnús Ingi Óskarsson frumkvöðull hjá Calidris, sagði á hádegisverðarfundi Framtíðarlandsins í morgun að náttúra Íslands væri auðlind sem þekkingar- og fjármálafyrirtæki noti til að laða gáfumenni til Íslands. Annars vegar dragi „hipp og kúl" ímynd Reykjavíkur ungt fólk hingað og hins vegar sæki eldra fólk í þau lífsgæði, sem það finni m.a. í ósnortinni náttúru.

Magnús Ingi sagði, að hagstæðara sé að reka fyrirtæki nær hvar sem er annars staðar í heiminum og hann gæti auðveldlega flutt fyrirtæki sitt hvert sem er. Eina ástæðan fyrir því að fyrirtækið sé hér sé sú, að eigendur þess vilji búa hér.

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, tók undir þetta en benti jafnframt á að hátæknistörf í álverinu á Reyðarfirði geri menntuðu fólki einnig kleift að setjast þar að. Þá spurði hann hvernig skilgreina ætti ósnortna náttúru og hversu mikil áhrif virkjanir hafi á hana í samanburði við annað, t.d. sumarbústaðabyggðir og landbúnað sem nýtt hafi hálendið til beitar. Ekki sé hægt að segja, að sum röskun sé vond en önnur röskun sé í lagi.

Þá sagði Árni erfitt, að meta náttúruna til króna og aura og reikna hana með í peningalegu mati. Hann væri hins vegar ekki andsnúinn því að reyna að finna aðferð til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert