Yfirtaka Alcoa á Alcan hefði ekki mikil áhrif hér

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist ekki sjá í fljótu bragði að mögulegur samruni Alcoa, móðurfélags Fjarðaáls á Reyðarfirði, og Alcan, móðurfélags álversins í Straumsvík, muni hafa mikil áhrif hér á landi. Hvort fyrirtæki sé með sína samninga við íslensk stjórnvöld og orkufyrirtæki og við þá verði haldið.

Alcoa tilkynnti í gær að fyrirtækið ætlaði að leggja fram formlegt tilboð í allt hlutafé Alcan, væntanlega í dag, upp á 33 milljarða dollara, eða um 2.100 milljarða íslenskra króna.

Munu skoða áformin á Íslandi

Kevin Lowery, upplýsingafulltrúi Alcoa, sagði við Morgunblaðið að meginmarkmiðið með yfirtökutilboði Alcoa væri að ná fram samlegðaráhrifum og auka um leið vöxt og tækifæri á heimsvísu. Samruni ætti ekki að hafa mikil áhrif á einstaka staði eins og Ísland. Hins vegar yrði sameinað fyrirtæki að skoða sérstaklega hvort ástæða væri til að breyta áformum um ný álver á Íslandi eða stækkun á þeim sem fyrir eru, of snemmt væri að segja hvort einhverjar breytingar yrðu gerðar á skipulögðum verkefnum.

Kemur ekki verulega á óvart

Jón Sigurðsson segir að fregnir gærdagsins hafi ekki komið sér verulega á óvart. "Ég efast ekki um að einhver spennandi færsla á tæknifræði og þekkingu á milli fyrirtækjanna getur átt sér stað þegar fram líða stundir, sem snertir bæði mengunarvarnir og fleiri þætti, og er jákvæð," segir Jón. Hann kveðst ekki telja að samruni muni hafa áhrif á áform Alcoa á Húsavík eða áform Alcan um stækkun í Straumsvík . Um aðgreinda samninga sé að ræða og frá sjónarhóli stjórnvalda séu þetta aðgreind mál. "Við munum tryggja að þetta verði engin valdasamþjöppun gagnvart okkur," segir Jón.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert