Rúmenarnir átta sem lögreglan á Akureyri hafði afskipti af í gær verða sendir úr landi í dag. Síðdegis í gær komu þeir til Reykjavíkur og þar bættust þeir í hóp fleiri Rúmena sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði fundið sofandi undir berum himni í fyrrinótt.
Að sögn lögreglu voru mennirnir komnir hingað til þess að vinna fyrir sér við spilamennsku en þeir voru ekki með tilskilin atvinnuleyfi, auk þess sem flestir þeirra voru með lítið fé á milli handanna og voru því ófærir um að framfleyta sér og kaupa sér gistingu.
„Við erum bara að hafa milligöngu um það að hjálpa þeim,“ segir Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn. Hann segir lögregluna hafa fundið um fjóra Rúmena í fyrrinótt þar sem þeir sváfu í miðborginni undir berum himni. Þá segir hann tvo Rúmena til viðbótar hafa mætt niður á lögreglustöð og óskað eftir aðstoð við að komast af landi brott.
Um 14 Rúmenar verða því fluttir af landi brott í dag með aðstoð lögreglu, en flogið verður með þá til Ósló. Á mánudag var 21 Rúmeni fluttur úr landi. Meirihluti Rúmenanna eru karlar.
Aðspurður segir Hörður ekki vita til þess að fleiri Rúmenar séu hér staddir í sömu erindagjörðum. Hann bendir þó á að það hafi komið í ljós að í síðustu viku hafi annar hópur Rúmena komið til landsins. Sá hópur sé hinsvegar farinn, hafi bjargað sér sjálfur.
Ekki er talið að Rúmenarnir hafi gerst brotlegir við lög hér á landi utan þess að vera ekki með tilskilin dvalar- og atvinnuleyfi.