Hætt við Live Earthtónleika í Reykjavík

eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

KEVIN Wall, framkvæmdastjóri samtakanna SOS – Save Our Selves, sem sjá um skipulag Live Earth-tónleikanna, hefur dregið til baka boð um að tónleikar verði haldnir í Reykjavík. Wall þótti íslenska ríkið sýna þessum viðburði of lítinn áhuga með því að styrkja ekki tónleikana, en auk þess þótti honum staðan ekki nógu góð hvað varðar tæknilegan undirbúning þeirra.

Kári Sturluson, sem sá um skipulag tónleikanna hér á landi, lagði fram beiðni til ríkisins um 25 milljóna króna styrk í janúar. Beiðnin var tekin fyrir í forsætisráðuneytinu og hafnað. Hún var seinna lækkuð í 15 milljónir, 23. apríl, en ekkert svar hefur borist við þeirri beiðni að sögn Kára.

Aðstoðarmaður forsætisráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, segir höfnun beiðninnar ekki bera vott um áhugaleysi á viðburðinum. Upphæðin hafi þótt of há og hana hefði að auki þurft að afgreiða með aukafjárlögum, hefði hún verið samþykkt.

Vilyrði hafði fengist fyrir því að tónleikarnir yrðu haldnir á Klambratúni og búið var að panta svið og ýmsan tæknibúnað. Óvissa um fjármögnun varð til þess að ekki var hægt að staðfesta pantanir. 50 milljónir króna höfðu safnast til tónleikanna þegar þeir voru blásnir af, en heildarkostnaður var 80 milljónir. Höfuðborgarstofa hafði þá tekið vel í beiðni Kára um að veita styrk, m.a. í formi þjónustu upp á 15 milljónir króna. Því skorti í raun aðeins 15 milljónir upp á, en verkefnið féll á tíma, að sögn Kára. | 20

Í hnotskurn
» Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hratt Live Earth-verkefninu af stað. Tilgangurinn er að vekja mannkynið til umhugsunar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra.
» Tónleikunum verður sjónvarpað til 120 landa í heilan sólarhring og talið er að tveir milljarðar manna muni horfa á. Heimsþekktir tónlistarmenn koma fram.
» Tónleikarnir verða haldnir í sjö borgum í sjö heimsálfum hinn 7. júlí.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert