Jörðin Hraun í Öxnadal friðlýst

Hraun í Öxnadal.
Hraun í Öxnadal.

Umhverfisráðherra mun á morgun friðlýsa hluta jarðarinnar Hrauns í Öxnadal sem fólkvang. Um er að ræða svæði sem nær yfir 2286 hektara jarðarinnar. Markmið friðlýsingarinnar er að sögn umhverfisráðuneytisins, að vernda svæðið til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu.

Ráðuneytið segir, að verndargildi svæðisins byggi einnig á því að landslag og náttúrufar, sérstaklega jarðmyndanir, séu mjög fjölbreytt og þar séu m.a. mikilvægar minjar um horfna búskaparhætti. Verndargildi svæðisins tengist einnig bókmenntaarfi þjóðarinnar, en þar fæddist skáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson.

Umsjón og rekstur fólkvangsins verður í höndum þriggja manna umsjónarnefndar sem skipuð er einum fulltrúa Hörgárbyggðar, einum fulltrúa Hrauns í Öxnadal ehf. og einum fulltrúa Umhverfisstofnunar samkvæmt samningi sem umhverfisráðherra hefur staðfest. Umsjónarnefndin skal skipuð í upphafi hvers kjörtímabils. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir fólkvanginn í samráði við Hörgárbyggð og stjórn Hrauns í Öxnadal ehf.

Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf í fólkvanginum. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir og aðrar náttúruminjar í fólkvanginum. Óheimilt er að rækta framandi plöntutegundir í fólkvanginum. Öll meðferð skotvopna er bönnuð í fólkvanginum, en umsjónarnefnd fólkvangsins getur veitt heimild til að veiða refi og minka í fólkvanginum ef sérstök ástæða þykir, en ætíð í samræmi við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og verndaráætlun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert