Knöpum þungt í skapi

eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

Hestamenn hafa þungar áhyggjur af öryggi sínu vegna sívaxandi umferðar torfærubifhjóla á reiðvegum. Lögreglan bregst alltaf við tilkynningum um slík lögbrot og tekur undir með hestamönnum að vandamálið hafi vaxið.

Að sögn Bjarna Finnssonar, formanns hestamannafélagsins Fáks, eru dæmi þess að fólk hafi dottið af baki þegar hestar fælast undan torfæruhjólum sem birtast skyndilega. Börn hafa dottið af baki og meiðst við þessar uppákomur og segir Bjarni að fátt sé eins mikið rætt meðal hestamanna og einmitt þessi hætta af hjólunum. "Þetta vandamál hefur vaxið verulega, ekki bara hér í þéttbýlinu heldur líka úti á landi," bendir hann á. "Slysahættan er mikil, því hestar eru í eðli sínu flóttadýr og fælast ef þeir sjá áberandi hluti birtast skyndilega. Og það hafa orðið slys vegna þessa. Þá eru ótaldar skemmdirnar sem ökumenn torfæruhjólanna valda á reiðvegum."

Bjarni segir Fák hafa kallað eftir betri merkingum við reiðstíga og segir að lögregla, ríki og borgaryfirvöld geri sér grein fyrir hættunni.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, tekur undir með Bjarna og segir lögregluna oft fá tilkynningar um torfærutæki á reiðvegum. "Þetta er talsvert vandamál í Mosfellsdal og víðar," segir hann. "Við sendum að sjálfsögðu lögreglumenn á staðinn en þá er viðkomandi ökumaður oft farinn, eða þá að hann bregst við með því að reyna stinga af. Við eigum ekki mörg úrræði í þeim tilvikum því við eltum ekki ökumenn utan vegar á lögreglubílum." Segir hann þetta vandamál hafa aukist mikið síðustu misserin vegna gífurlega mikils innflutnings á torfæruhjólum. Hugsanlega gæti það auðveldað lögreglu að ná til ökumanna ef embættið eignaðist torfærutæki sjálf en það sé álitaefni hvort forsvaranlegt væri að auka slysahættu ef lögreglan færi að stunda eftirför á malarstígum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert