RES Orkuskóli tók formlega til starfa með opnunarhátíð í Ketilhúsinu á Akureyri í dag. Skólinn er afrakstur fjögurra ára undirbúningsferlis og verður alþjóðlegeinkarekin mennta- og vísindastofnun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. RES er ensk skammstöfun fyrir Renewable Energy Science.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá skólanum er fyrsti nemendahópur skólans væntanlegur til Akureyrar eftir um fjórar vikur en áætlað er að nemendur verði 50-80 þegar skólinn verður kominn í fulla starfsemi.
Umfang skólans kallar á byggingu vísindagarða við Háskólann á Akureyri og sömuleiðis er í farvatninu bygging nýrra íbúða við stúdentagarða Háskólans á Akureyri sem nýtast munu skólanum.
Forsvarsmenn RES Orkuskóla kynntu starfsemina við hátíðlega athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri í dag og við þá athöfn fluttu fluttu m.a. ávörp Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra og Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands.
Á fundinum var tilkynnt um 150 milljóna króna framlag úr Þróunarsjóði EFTA vegna umsóknar fimm tækniháskóla í Póllandi um menntun pólskra verkfræðinga í orkufræðum við Orkuskólann.
Sömuleiðis var tilkynnt um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um 60 milljóna króna stuðing við RES Orkuskóla.