Um 70% lögreglumanna hefur verið hótað á síðustu fimm árum

Ólafur Örn Bragason, einn skýrsluhöfunda, gerir grein fyrir skýrslunni á …
Ólafur Örn Bragason, einn skýrsluhöfunda, gerir grein fyrir skýrslunni á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Júlíus

Um 70% lögreglumanna sögðust í könnun hafa orðið fyrir hótun í vinnu á síðustu fimm árum og 26% utan vinnutíma vegna starfs síns. Um 43% lögreglumanna höfðu orðið fyrir ofbeldi í vinnu á sama tíma án þess að hljóða meiðsli af og 7% utan vinnutíma. Þá höfðu 15% lögreglumanna orðið fyrir ofbeldi sem leiddi til stórvægilegra eymsla við störf sín, 4% höfðu fengið alvarlega áverka og 1% hafði orðið fyrir ofbeldi sem leiddi til líkamlegrar fötlunar í vinnu.

Embætti ríkislögreglustjóra gerði í dag grein fyrir skýrslu, sem komin er út um málið. Þar birtast niðurstöður könnunar á ofbeldi gegn lögreglumönnum, sem gerð var meðal starfandi lögreglumanna á árinu 2005. Þá er einnig gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á skráðum brotum úr málaskrá á árunum 1998 til 2005.

Á því tímabili var alls tilkynnt um 685 ofbeldisbrot gegn lögreglumönnum og í 14% þeirra tilfella var vopni beitt, oftast eggvopni eða barefli. Í einu tilfelli var vopnið skotvopn. Það var árið 2001 en þá var lögreglumanni ógnað með skammbyssu.

Skýrsluhöfundar ásamt ríkislögreglustjóra og yfirlögregluþjóni embættisins.
Skýrsluhöfundar ásamt ríkislögreglustjóra og yfirlögregluþjóni embættisins. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert