Umsóknum til Tryggingastofnunar um hjálpartæki fjölgar mikið

Umsóknir um hjálpartæki til Tryggingastofnunar ríflega tvöfölduðust á undanförnum áratug, úr tæplega 14 þúsund árið 1996 í um 30 þúsund árið 2005. Á sama tíma hefur fjöldi samþykktra hjálpartækja aukist gífurlega. Til dæmis jókst fjöldi samþykktra handdrifinna hjólastjóla um 150% á tímabilinu 1996 til 2006 og fjöldi samþykktra göngugrinda jókst álíka mikið á sama tímabili.

Útgjöld til hjálpartækja var 554 milljónir árið 1996 en voru 1452 milljónir á síðasta ári. Á sama tímabili fjölgaði umsóknum úr 13.571 í 28.435.

Tryggingastofnun segir, að ástæður fyrir þessari auknu þörf fyrir hjálpartæki megi rekja til breyttra áherslna í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Til dæmis hafi legutími á sjúkrahúsum styst, heimaþjónusta aukist og tækni í gerð hjálpartækja hefur fleygt mikið fram.

Eftirspurn eftir hjálpartækjum til að gera fólki kleift að vera heima er mikil og gæði tækja hafa aukist gríðarlega, svo sem sérútbúinna rafknúinna hjólastóla, tjáskiptabúnaðar, sérútbúinna tækja í bifreiðar, insúlíndælna og rafmagnsgervihandleggja.

Tryggingastofnun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert