Á fjölmennu Miðborgarþingi sem haldið var um uppbyggingu á horni Lækjargötu og Austurstrætis í kjölfar stórbrunans 18. apríl sl. komu fram margvíslegar hugmyndir. Meðal annars sagði Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbankans, að bruninn hefði skapað nýjar aðstæður. Hann sagði að eyðing fæli í sér nýtt upphaf.
„Því er komin fram fullgóð ástæða til að skoða hvort bruninn gefi tækifæri til að ná fram áhugaverðri heildarmynd sem þjóna mun miðbænum til framtíðar," sagði Björgólfur og vísaði til mikillar uppbyggingar í kringum svæðið. Hann birti jafnframt niðurstöður úr könnun Capacent Gallup um viðhorf almennings til miðborgarinnar en þar kemur fram að aðeins 6,7% telja hana vera miðstöð verslunar og þjónustu og um 78% eru á þeirri skoðun að efla þurfi þessa þætti miðborgarinnar.
Nánar er fjallað um íbúaþingið í Morgunblaðinu í dag.