Staðhæft er í breska blaðinu Financial Times í dag að kosningarnar á Íslandi á laugardag verði þær dramatískustu á síðari árum þar sem þjóðin muni þar leggja mat sitt á þær miklu breytingar sem átt hafi sér stað í íslensku efnahagslífi undanfarin fimmtán ár. Þá segir að núverandi ríkisstjórn hafi breytt íslensku þjóðinni úr ríkisstýrðri fiskveiðiþjóð í frjálst og fjölbreytilegt tígris-efnahagskerfi en það orð hefur m.a. verið notað um skjótan uppgang efnahagskerfa landa í Suðaustur-Asíu. Hins vegar sé deilt um það hvort þessar breytingar hafi verið of dýru verði keyptar.
Vitnað er í Katrínu Jakobsdóttur, varaformann Vinstri grænna, þar sem hún talar um vaxandi ójöfnuð í íslensku samfélagi og að menntamál og málefni eldri borgara hafi verið látin sitja á hakanum.
Þá er vitnað í íslenska stjórnmálafræðinga sem segja áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mjög ólíklegt og að viðræður séu þegar hafnar á milli forsvarsmanna flokkanna. Líklegast sé talið að samfylking og Vinstri grænir myndi stjórn saman eða að sjálfstæðisflokkurinn myndi stjórn með öðrum hvorum þessara flokks. Erfitt sé að segja hver þessara möguleika sé líklegastur enda sé hefð fyrir því aðíslenskir stjórnmálaflokkar vinni vel saman þegar kemur að stjórnarsamstarfi þrátt fyrir hugmyndafræðilegan ágreining. Fjörið muni því virkilega hefjast daginn eftir kosningarnar þegar stjórnarmyndunarhringekjan fari af stað.