Nefnd, sem menntamálaráðherra skipaði í maí á síðasta ári til að skoða kosti þess að stofna og starfrækja safn um flugsögu og flugminjar á Íslandi, leggur til að stofnað verði Flugminjasafn Íslands sem samnefnari sjálfstæðra flugsafna á Íslandi með sameiginlegri stofnskrá sem tryggi samstarf, yfirsýn og heildarstefnumótun.
Flugsafnið á Akureyri er að mati nefndarinnar eina safnið sem uppfyllir sem stendur skilyrði sem aðildarsafn að Flugminjasafni Íslands. Önnur söfn gætu síðar einnig orðið aðilar, svo sem fyrirhuguð flugsöfn í Reykjavík og á Suðurnesjum. Einnig verði formlegt samstarf við önnur söfn, fyrirtæki og félög sem sinna flugsögunni með einum eða öðrum hætti. Fyrirmynd að þessu er stofnun samtaka sjóminjasafna á Íslandi.