Þriggja ára fangelsisdómur vegna sjóslyss staðfestur

Dómur Hæstaréttar skoðaður eftir uppkvaðningu í dag.
Dómur Hæstaréttar skoðaður eftir uppkvaðningu í dag. mbl.is/KGA

Hæstiréttur staðfesti í dag þriggja ára fangelsisdóm yfir Jónasi Garðarssyni fyrir manndráp af gáleysi á Viðeyjarsundi árið 2005 þegar tveir farþegar í báti, sem Jónas stjórnaði, fórust. Þá var hann dæmdur til að greiða aðstandendum fólksins sem lést samtals um 9 milljónir króna í bætur og einnig þarf hann að greiða sakarkostnað.

Einn dómari Hæstaréttar, Hrafn Bragason, skilaði séráliti og taldi refsingu Jónasar hæfilega 2½ árs fangelsi.

Hæstiréttur sakfelldi Jónas fyrir að hafa hafa aðfaranótt 10. september 2005, sem skipstjóri skemmtibátsins Hörpu á siglingu með fjóra farþega, verið undir áhrifum áfengis við stjórn bátsins og ekki haft gát á siglingaleiðinni er siglt var í næturmyrkri og slæmu skyggni og hafa þannig með stórfelldri vanrækslu í skipstjórastarfi orðið valdur að því að báturinn steytti á Skarfaskeri með þeim afleiðingum að einn farþeginn lést og annar hlaut verulega áverka.

Þá var Jónas sakfelldur fyrir að hafa ekki gert ráðstafanir til bjargar farþegum eftir að stórlega laskaður báturinn losnaði af skerinu um 20 mínútum eftir ásiglinguna, hvorki leitað aðstoðar björgunarliða né siglt skemmstu leið til lands, heldur tekið stefnu austur Viðeyjarsund þar sem bátnum hvolfdi skömmu síðar með þeim afleiðingum að annar farþegi drukknaði.

Fyrir Hæstarétt var lögð fram matsgerð tveggja lækna sem töldu að Jónas hefði verið ófær um að hugsa rökrétt eða taka fulla ábyrgð á gerðum sínum í kjölfar ásiglingarinnar. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að matsmenn hafi ekki getað stutt niðurstöðu sína við beina skoðun eða rannsóknir á Jónasi enda hafi þeim verið falið að leggja mat á mjög skammvinnt tímabundið andlegt ástand hans eftir slysið, sem varð hálfu öðru ári áður en matið fór fram. Rýri þetta sjálfstætt gildi matsgerðarinnar mjög.

Ekki þótti af gögnum málsins unnt að draga þá ályktun að Jónas hefði verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum eftir ásiglinguna.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert