Stangveiði nýtur sífellt meiri vinsælda. Nú eru veiðimenn einnig farnir að leita út fyrir landssteinana. Nýjustu áfangastaðir íslenskra stangveiðimanna eru í Indlandshafinu en þar getur fólk viðrað veiðistangir sínar í góðveðursparadís þegar skammdegið grúfir yfir Íslandi.
Einn þessarra áfangastaða eru Maldíveyjar, veðursæll ævintýraheimur suðvestur af Indlandi og Sri Lanka. Þarna eru um 1200 eyjar og 2000 rif að auki; einungis er búið á um eitt hundrað eyjanna - hinar eru eins og klipptar úr ævintýrinu um Róbinson Krúsó.
Blaðamaður Morgunblaðsins slóst í liðinni viku í för með hópi veiðimanna, sem dvöldu í viku á lúxusfleyi sem sigldi milli eyja nyrst í Maldíveyjum. Móðurskipinu fylgdi stór veiðibátur og tveir hraðbátar. Frásögn af veiðiferðinni til Maldíveyja birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.