Kristín Guðmundsdóttir, sem er elsti núlifandi Íslendingurinn, verður 105 ára í dag. Hún kemst þar með í hóp þeirra 23 Íslendinga sem hafa orðið svo langlífir, en 18 þeirra hafa átt heima á Íslandi og 5 í Vesturheimi.
Kristín er fædd í Kolbeinsvík í Strandasýslu og ólst upp í Byrgisvík. Foreldrar hennar voru Guðmundur Jónsson bóndi og Sigríður Ingimundardóttir húsmóðir. Kristín átti sextán systkini, en þrettán þeirra náðu fullorðinsaldri.
Kristín flutti til Ísafjarðar 1935 og til Reykjavíkur 1954. Hún flutti síðan til Hafnarfjarðar árið 1958. Kristín stundaði verkamannavinnu samhliða heimilisstörfum.
Kristín var mikil handavinnukona, saumaði, prjónaði og heklaði mikið. Hún er trúuð og mikið fyrir að hlusta á sálma og íslensk ættjarðarlög. Áður fyrr sótti hún samkomur hjá Hjálpræðishernum.
Maður Kristínar var Viggó Guðmundsson verkamaður, ættaður af Ströndum. Börn þeirra voru Skúli, sem lést aðeins tvítugur að aldri, Vigdís, Lilja og Sigmundur, sem lést 2004.
Kristín bjó á Álfaskeiði 64 með syni sínum Sigmundi þar til hún fór á hjúkrunarheimilið Sólvang, þá orðin 100 ára. Sigmundur kom á hjúkrunarheimilið nokkru áður.
Kristín klæðist suma daga og situr stutta stund í hjólastól. Heyrn hennar er farin að daprast en sjónin er góð. Dætur hennar koma daglega í heimsókn. Afkomendur Kristínar og Viggós eru 40.