Neytendasamtökin segja, að svo virðist sem hægt sé að greiða atkvæði í símakosningu Eurovision hvenær sem er og séu 100 krónur gjaldfærðar á símreikning viðkomandi þrátt fyrir að atkvæðið sé ógilt og það sé greitt utan tilskilins tímafrests. Segjast Neytendasamtökin munu óska eftir upplýsingum um fjölda ógildra atkvæða sem verða gjaldfærð.
Starfsmaður Neytendasamtakanna hringdi í gær um miðjan dag og kaus lag af handahófi. Atkvæðið var móttekið, 100 krónur voru dregnar af símreikningnum en atkvæðið var ógilt enda er einungis leyfilegt að kjósa í stuttan tíma eftir að öll lögin hafa verið flutt.
Þá segja samtökin að þótt einungis sé hægt að kjósa þrisvar úr sama síma sé gjaldfært fyrir símtöl umfram þessi þrjú. þrátt fyrir að þau séu ógild.
Neytendasamtökin hvetja Símann, sem sér um framkvæmd símakosningarinnar, til að tryggja að einungis sé hægt að greiða gild atkvæði þegar sjálf atkvæðagreiðslan fer fram.