Fréttaskýring: Bjargar Íslandshreyfingin stjórnarmeirihlutanum?

Ósk Vilhjálmsdóttir, Margrét Sverrisdóttir og Ómar Ragnarsson á kosningahátíð Íslandshreyfingarinnar.
Ósk Vilhjálmsdóttir, Margrét Sverrisdóttir og Ómar Ragnarsson á kosningahátíð Íslandshreyfingarinnar. mbl.is/Ómar
Eftir Ólaf Þ. Stephensen, olafur@mbl.is

Í sjónvarpsumræðum formanna stjórnmálaflokkanna fyrir stundu sagði Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, að yrði staðan þessi, væri eðlilegt að hann og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, ræddu saman. Áhugi Sjálfstæðisflokksins á áframhaldandi stjórnarsamstarfi er því ljóslega fyrir hendi.

Framsóknarmenn eru hins vegar greinilega vígamóðir og Jón Sigurðsson orðaði það svo að aðrir yrðu að hafa frumkvæði að stjórnarmyndun en framsóknarmenn. Hins vegar hefði oft verið leitað til flokksins.

Jafnvel þótt Framsókn verði ekki til í áframhaldandi stjórnarsamstarf, þrátt fyrir að þingmeirihlutinn haldi naumlega, eiga stjórnarflokkarnir meira svigrúm til viðræðna við aðra en ef meirihlutinn fellur. Það verður þá ekki nauðsynlegt fyrir forsætisráðherra að biðjast strax lausnar fyrir stjórnina. Líklega styrkir þetta þó stöðu Sjálfstæðisflokksins fremur en Framsóknar.

Forystumenn stjórnarandstöðunnar hafa í ummælum sínum í nótt haldið fast við að byrja á að ræða um „kaffibandalagsstjórn“ fari svo að stjórnarandstaðan nái meirihluta. Fari hins vegar svo að aðeins muni einum þingmanni, munu Vinstri græn og Samfylking hafa áhyggjur af því að einstaklingar í liði frjálslyndra geti hlaupið út undan sér í stjórnarsamstarfinu. Hugsanlega leita þessir flokkar þá til Framsóknar. Hiki framsóknarmenn þá enn, aukast líkur á að fremur verði reynt að mynda tveggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokksins með annaðhvort VG eða Samfylkingu.

Eins og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, benti á í umræðum í Ríkissjónvarpinu hefur tilkoma Íslandshreyfingarinnar líklega gert stjórnarandstöðunni erfiðara fyrir að fella ríkisstjórnina, miðað við þessa niðurstöðu. Atkvæði, sem hefðu getað nýtzt stjórnarandstöðuflokkunum, detta dauð niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert