Eggert Magnússon, stjórnarformaður West Ham, hefur bæst í hóp þeirra sem heitið hafa fjármunum til þeirra sem geta gefið upplýsingar um Madeleine McCann, fjögurra ára gamla stúlku sem hvarf úr herbergi sínu á sumarleyfisstað á Portúgal fyrir 10 dögum síðan.
Á fréttavef breska ríkisins er listi yfir þá sem heitið hafa fjármunum fyrir einhvers konar upplýsingar er geta stuðlað að því að hin fjögurra ára gamla Madeleine McCann sem hvarf fyrir tíu dögum síðan finnist.
Fréttavefur Morgunblaðsins hafði samband við Eggert nú í morgun. Hann vildi ekki gefa upp hversu háa upphæð hann hafði látið af hendi og sagði stuðning sinn vera fyrst og fremst táknrænan, „Ég er náttúrulega pabbi og afi og held mikið upp á fjölskyldu mína þannig að ég finn mikið til með foreldrum litlu stúlkunnar sem ganga í gegnum vítiskvalir.“
Knattspyrnuheimurinn í Bretlandi hefur látið til sín taka í málinu og hafa margir af þekktustu knattspyrnumönnum þar í landi hvatt almenning til að gefa lögreglu hvers kyns upplýsingar sem gætu leitt til þess að litla stúlkan fyndist. Eggert segir þetta mál liggja þungt á bresku þjóðinni og því sé ósköp eðlilegt að fulltrúar vinsælustu íþróttar landsins veki athygli á því.
Þegar Eggert var inntur eftir því hvort hann hafi mikla trú á því að verðlaunafé hjálpi til við leitina, sagðist hann ekki hafa mikla þekkingu á því en í milljónasamfélagi þurfi ansi mikið til að almenningur stígi fram og gefi einhverjar upplýsingar, „Þetta fé verður vonandi til þess að hvetja einhverja til að láta lögreglunni nauðsynlegar upplýsingar í té."
2,5 milljónir punda hafa safnast í áheitafé
Alls hafa safnast um tvær og hálf milljón punda í áheitafé eða 315 milljónir króna og hafa margir gefið fé í sjóðinn sem Eggert býst við að lögfræðingar foreldranna geri lögformlegan sem fyrst.
Meðal þeirra sem hafa heitið fjárgjöfum fyrir upplýsingar um Madeleine eru JK Rowling, höfundur sagnanna um Harry Potter, Richard Branson, eigandi Virgin flugfélagsins og Wayne Rooney knattspyrnumaður.