Rafmagn er komið aftur á byggðir á Suðurnesjum. Þá fór rafmagn af Keflavíkurflugvelli en það er nú komið aftur á. Rafmagnsleysið olli minniháttar töfum á vellinum og þá lá öll þjónusta niðri um stundarsakir. Rafmagnið fór kl. 16 en það var aftur komið á um kl. 16:30 í bæjum og byggðum að sögn Hitaveitu Suðurnesja. Orsök rafmagnsleysisins liggur ekki fyrir.
Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri segir rafmagnsleysið ekki hafa haft teljandi áhrif á starfssemi flugvallarins, hvað flugið sjálft varðar. Díselrafstöðvar hafi tekið við þegar rafmagnið sló út. Aðflugsradarinn hafi því ekki dottið út, flugturninn og brautarljósakerfi svo dæmi séu nefnd um mikilvæg öryggistæki vallarins.
Hann segir flugstöðina sjálfa einnig vera tengda slíkum díselrafstöðvum og því hafi tafir þar ekki verið miklar, en rafmagnsleysið varði í um hálftíma sem fyrr segir.