Varmársamtökin stöðvuðu framkvæmdir verktaka við Álafosskvos í Mosfellsbæ í dag, en samtökin halda því fram að verið sé að undirbúa lagningu tengibrautar á svæðinu. Þessu hefur bæjarstjóri neitað, en hann segir að aðeins sé verið að leggja vatnslagnir í jörð.
Verktakarnir voru beðnir um að fresta framkvæmdum til kl. 12 í á morgun. Þeir urðu við þeirri kröfu en sögðust hinsvegar ætla að hefja vinnu aftur kl. 9 í fyrramálið.
„Okkur finnst ekki trúverðugt að þetta snúist bara um einhverjar skolplagnir, því það er greinilegt að þarna er verið að vinna veg,“ segir Sigrún Pálsdóttir, stjórnarmaður í Varmársamtökunum, í samtali við mbl.is. Hún segir alla, sem hafa séð framkvæmdirnar, vera á einu máli varðandi hvað sé í gangi.
Hún segir vegaframkvæmdina hafa hafist á ný án deiliskipulags og framkvæmdaleyfis.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, sagði í samtali við mbl.is í dag að dreifibréf hefði verið sent í hús í næsta nágrenni framkvæmdasvæðisins þar sem útskýrt hafi verið í hverju framkvæmdirnar séu fólgnar. „Það er því ekki verið að fara fram gegn neinu deiliskipulagi, eða neinu slíku. Það er eingöngu verið að fara þarna með veiturnar sem verða að fara þessa leið til að tengjast holræsakerfi og öðrum kerfum sveitarfélagsins,“ sagði Ragnheiður.
„Okkar verkfræðingar segja að þetta sé ekki eðlileg skolpræsalögn. Þetta er undirlag undir veg.“
Aðspurð segir Sigrún samtökin vera að skoða málið með sínum lögmönnum.