Nýr vágestur ógnar nú æðarvarpi og hefur Björgvin Sveinsson æðarvarpsbóndi í Önundarfirði orðið fyrir barðinu á honum. „Fólk hefur komið á bílum, stekkur út og hirðir egg og keyrir burt í snarhasti,“ segir Björgvin við fréttavef Bæjarins besta og bætir við að hann hafi haft fregnir af því að eggjaþjófarnir hafi einnig heimsótt æðarbændur í Dýrafirði.
Björgvin segir að æðarbændur grípi til ýmissa ráða til þess að vernda vörp sín, til að mynda girði þau til að vernda fyrir ágangi búfénaðs og tófa, en ekki sé vitað hvernig eigi að leysa þetta mál. „Ég vil benda fólki á tala við hluteigandi bændur ef það langar í egg, frekar en að fara að þessu svona. Það ætti ekki að vera mikið mál að gefa þeim egg að smakka, en þessi aðferð til að ná sér í egg er að vitaskuld með öllu óheimil.“
Að sögn Björgvins hefur ekki verið tilkynnt um tiltækið til lögreglunnar en víst er að þetta verður lögreglumál ef það næst til þeirra sem eiga í hlut. „Það er erfitt að sjá til þeirra í þéttu varpi og það slapp einn frá mér í gær en ég náði ekki bílnúmerinu hjá honum áður en hann hafði ekið í burtu. Ef ekki verður hægt að ráða bót á þessu á annan hátt verður að fara með þetta til lögreglunnar.“