Það eru missparneytnir bílar sem taka þátt í árlegru sparaksturskeppni bifreiðaumboðanna í ár. Sá bíll sem vakti mesta athygli er enginn fjölskyldubíll. Það er Ford GT ofurbíll sem er 550 hestöfl og er 3,4 sekúndur að ná 100 km hraða og 6 sekúndur að komast upp í 160 km siglingu.
Í ár er keppnin tvískipt, bílaumboðin fá sérkeppni að þessu sinni en keppni fyrir almenna keppendur mun fara fram í september.
Það eru 32 þátttakendur skráðir frá bílaumboðunum. Lagt var af stað frá Ártúnsbrekkunni klukkan tvö og þaðan aka keppendur sem leið liggur upp Mosfellsdal á Þingvelli og Selfoss. Þaðan liggur leiðin niður á Eyrarbakka og Þrengslin farin á heimleiðinni og endað á upphafsreit í Ártúnsbrekkunni.
Þá verður tankurinn fylltur á nýjan leik og þá sést hvað keppendur hafa eytt mörgum bensíndropum. En markmiðið með keppninni er eins og nafnið bendir til að eyða sem minnstu eldsneyti.
Það eru bifreiðaumboðin, Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Atlantsolía sem halda keppnina.